Bólusetningar hunda, katta og kanína

Alla hunda, ketti og kanínur ætti að bólusetja með reglulegum hætti.

Mælt er með að grunnbólusetja hvolpa við 8 vikna aldur, aftur þegar þeir eru 12 vikna og svo 16 vikna. Næst er svo bólusett ári seinna og eftir það á þriggja ára fresti.
Bóluefnið sem notast er við á Íslandi heitir Recombitek og veitir hundunum vörn gegn smáveirusótt (canine parvovirus), lifrarbólgu (canine adenovirus I – hepatitis contagiosa canis), hundafári (paramyxovirus – canine distemper) og kennelhósta (canine parainfluenza).

_________________________

Mælt er með að bólusetja ketti tvisvar í upphafi, fyrst við 12 vikna aldur og svo aftur 16 vikna. Næst ætti svo að bólusetja þá ári seinna en eftir það fer tíðnin eftir smitálagi. Þannig ætti að bólusetja útiketti á hverju ári en inniketti sem aldrei umgangast ókunnuga ketti ætti að vera óhætt að bólusetja á 1-3 ára fresti. Bóluefnið sem notast er við á Íslandi heitir Purevax og veitir köttunum vörn gegn kattafári (feline parvovirus – feline panleucopenia), kattaflensu (feline herpesvirus 1 – feline viral rhinotracheitis) og kattakvefi (feline calicivirus). Þessar veirur eru allar landlægar á Íslandi

_________________________

Mælt er með að bólusetja kanínur gegn smitandi lifrardrepi (rabbit haemorrhagic disease).
Bóluefnið heitir Eravac og mælt er með einni grunnbólusetningu eftir 5 vikna aldur og svo árlega

Í reglugerð um velferð gæludýra er einnig kveðið á um skyldu gæludýraeigenda til að láta örmerkja alla hunda, ketti og kanínur og skrá í miðlægan gagnagrunn, www.dyraaudkenni.is