Geldingar og ófrjósemisaðgerðir
hunda og katta
Hundar
Við geldingu á rökkum eru eistu fjarlægð úr pung og settir innri saumar svo ekki er þörf á saumatöku. Skurðurinn er á milli pungs og typpis og rakkinn þarf að hafa skerm í 5-7 daga svo hann komist ekki í hann og sleiki.
Í ófrjósemisaðgerð á tík eru eggjastokkarnir fjarlægðir í gegnum skurð á kviðarholi og settir innri saumar svo ekki er þörf á saumatöku. Tíkin þarf að hafa skerm eða vera í fatnaði s.s. skurðbúningi í 7-10 daga til þess að koma í veg fyrir að hún komist í skurðinn og sleiki hann. Eftir aðgerðina hætta tíkur að lóða.
Í maí 2025 fórum við einnig að bjóða upp á að gera ófrjósemisaðgerðir á tíkum og læðum með kviðarholssjá (e. laparascopic surgery) og HÉR er hægt að fræðast meira um þá aðgerð samanborið við hefðbundna aðgerð.
Viðmið, um hvaða aldri hundur þarf að hafa náð fyrir geldingu eða ófrjósemiðagerð, eru breytileg eftir hundategundum. Sjá Suggested Guidelines by Breed for Age of Neutering (mynd bls. 5). Þær hundategundir sem ekki eru á þessum lista hafa ekki verið rannsakaðar sérstaklega.
Kettir
Við geldingu á fressum eru eistun fjarlægð úr pung og engir saumar notaðir. Eftir aðgerð eru því tvö lítil skurðsár á pungnum sjálfum sem yfirleitt gróa á nokkrum dögum.
Í ófrjósemisaðgerð á læðu eru eggjastokkarnir fjarlægðir í gegnum skurð á kviðarholi og settir innri saumar svo ekki er þörf á saumatöku.
Fyrir bæði fress og læður er miðað við að kötturinn þurfi að vera orðinn a.m.k. 2 kg að þyngd fyrir aðgerð.
_____________________________
Fyrsta sólarhringinn eftir allar þessar aðgerðir er mikilvægt að halda hita á dýrinu. Það tekur líkamann 24-48 klst að vinna úr svæfingarlyfjunum svo líklegt er að dýrið sé sljótt/þreytt eftir aðgerðina þar sem lyfin hægja á líkamsstarfseminni. Ekki er óalgengt að matarlyst sé minni eftir aðgerðina, en það er þó mikilvægt að bjóða upp á vatn og nokkrar litlar máltíðir. Ekki hafa vatn í grennd við rúm/bæli á meðan dýrið er sljótt
Mikilvægt er að fylgjast með skurðinum fyrstu dagana eftir aðgerð og láta athuga sárið ef einhver grunur er um sýkingu. Sýking gæti lýst sér í vondri lykt frá sárinu, og ef dýrið er slappt, lystarlaust og sefur mikið.