Smitandi hóstapest

Smitandi hóstapest í hundum er í daglegu tali oft nefnd „kennelhósti“ eða „hótelhósti“. Flestir hundar jafna sig sjálfir á smitandi hóstapest, heilbrigðir hundar á besta aldri eru oft með einkenni í 2-3 vikur en verða ekki alvarlega veikir. Pestin orsakast af völdum vírusa og baktería meðal annars:

  • Parainfluenza virus

  • Adenovirus

  • Bordetella bronchiseptica

Hóstapestin smitast mjög auðveldlega milli hunda og smitálag er meira á lokuðum svæðum þar sem eru margir hundar, t.d. hundahótelum, hundasýningum og hundasvæðum. Eins og er, er bólusett við parainflúenzu vírus og adenovírus,
en smit eru samt alltaf möguleiki þrátt fyrir bólusetningu.
Tíðni smita lækkar þó töluvert ef hundur er reglulega bólusettur.

Ef hundurinn þinn er að fara á hundahótel þá er góð regla að bólusetning sé innan við 1 árs gömul. Ef liðið er lengra frá síðustu bólusetningu ætti að bólusetja hundinn að lágmarki 14 dögum fyrir áætlaða hóteldvöl.

Einkenni hóstapestarinnar

  • Flestir hundar fá ekki alvarleg einkenni en algengast er að sjá þurran hósta úr efri öndunarfæravegi, hundar kúgast oft og ræskja sig eins og þeim líði eins og eitthvað sé fast í kokinu.

  • Yfirleitt stendur hóstinn yfir í nokkra daga og getur versnað í byrjun, áður en hóstinn fer hægt og rólega að lagast.

  • Einkenni hósta geta varað í allt að 3-4 vikur.

  • Einstaka hundar fá hita og lystarleysi í nokkra daga

  • Í örfáum tilfellum veikjast hundar svo að þeir þurfa á aðstoð dýralæknis að halda. Ef hundur fær alvarlegri einkenni en lýst er hér að ofan, er mjög ungur hvolpur eða gamall og glímir við undirliggjandi sjúkdóma, skal hafa samband við dýralækni.

Hvað er hægt að gera fyrir hundinn?

Engin sértæk meðferð er til gegn smitandi hóstapest. Ef hundur veikist alvarlega munu dýralæknar meta hvert tilfelli fyrir sig og þá hvort og hvaða lyf skal nota.

Hvað getur hundaeigandi gert til að hjálpa veikum hundi?

  • Rétt eins og í mannfólki, þá skal forðast að eyða löngum tíma í köldu loftslagi, þar sem kalda loftið ertir öndnarfæri og getur ýtt undir meiri hósta.

  • Forðast aðstæður þar sem hundurinn þinn geltir mikið

  • Það má bjóða blautmat í stað þurrmats eða bleyta upp í þurrmat, þar sem hann ertir kokið minna og hentar stundum betur í veikindum.

  • Nota beisli í stað hálsólar, þar sem þrýstingur hálsólar getur verið óþægilegur fyrir hundinn.

  • Sýna ábyrgð – þessi hóstapest er smitandi og því er ekki ráðlegt að fara á hundasvæði eða hitta aðra hunda svo þeir smitist ekki af þínum hundi.

  • Mæta reglulega í bólusetningu – sjá nánari upplýsingar um „bólusetningar hunda“ fróðleikinn hjá okkur.