Legbólga hjá tíkum
Legbólga (e. pyometra) er skilgreind sem sýking í legi og er hættulegt ástand sem getur leitt til dauða.
Allar tíkur geta fengið legbólgu en það er þó algengara þegar þær eru komnar yfir miðjan aldur og þá oftast 2-8 vikum eftir lóðarí. Einnig eru tíkur sem eiga sögu um óreglulegt lóðarí og/eða gervióléttu í auknum áhættuhóp.
Legbólga getur verið ýmist opin eða lokuð, þá eftir því hvort að leghálsinn er opinn eða lokaður. Ef hann er opinn kemur oftast sýkt útferð frá tíkinni og hún sleikir sig þá óeðlilega mikið. Ef leghálsinn er lokaður fyllist legið og getur í verstu tilfellum rofnað. Lokuð legbólga er því mjög hættuleg og mikilvægt að tíkin fái læknismeðhöndlun sem fyrst.
Meðhöndlun við legbólgu er skurðaðgerð þar sem leg og eggjastokkar eru fjarlægð.
Einkenni legbólgu eru:
Drekka mikið/pissa mikið
Slímug útferð frá ytri kynfærum
Lystarleysi
Slappleiki og/eða vanlíðan
Hiti (yfir 39,2 °C)
Þaninn kviður
Uppköst
Athugið að tíkur geta sýnt einhver eða öll ofangreindra einkenna
en geta líka verið nánast einkennalausar.
Mikilvægt er fyrir eigendur tíka að gera sér grein fyrir að ófrjósemisaðgerð kemur í veg fyrir hættu á legbólgu. Einnig eru mun minni líkur á að tík sem búið er að taka úr sambandi fái júguræxli sem eru ein algengustu æxlin í hundum. Því fyrr sem tík er tekin úr sambandi, þeim mun minni líkur á júguræxlum seinna meir.