Skjaldkirtilsvandamál hjá hundum og köttum

Skjaldkirtillinn (e. Thyroid gland) er staðsettur sitthvoru megin við barkann í hálsinum á dýrum. Þessi kirtill hefur það hlutverk að framleiða skjaldkirtilshormón sem hefur áhrif á líffæri og aðra hormónaframleiðslu í líkamanum. Bæði hundar og kettir geta greinst með vandamál tengd skjaldkirtli. Langoftast er það þá ofvirkur skjaldkirtill hjá köttum en vanvirkur skjaldkirtill hjá hundum.

Ofvirkur skjaldkirtill (e. Hyperthyroidism) er þegar skjaldkirtilinn framleiðir skjaldkirtilshormón í of miklum mæli. Aukin framleiðsla á T3 og T4 hormóninu hefur áhrif á aðra hormónastarfsemi í líkamanum og leiðir oft til veikinda. Helstu einkenni eru:

  • Aukin matarlyst, þyngist ekki (jafnvel léttist).

  • Aukinn þorsti og/eða aukið þvaglát.

  • Uppköst, niðurgangur

  • Mattur eða illa hirtur feldur

  • Hegðunarbreytingar t.d. að „góla“ í auknum mæli.

  • Þykkari klær

  • Óeðlilega hraður hjartsláttur

  • Ákveðinn andlitssvipur sem dýralæknar þekkja vel

Kisur geta verið með sum eða engin af ofangreindum einkennum. Meðan veikindi eru ekki orðin langt leidd þá eru einkenni oft mjög væg. Greining á ofvirkum skjaldkirtli er gerð með blóðprufu hjá dýralækni. Ef köttur greinist með ofvirkan skjaldkirtli er hægt að setja hann á lyf eða í vægari tilfellum er stundum nóg að skipta yfir á sérstakt sjúkrafóður.

Vanvirkur skjaldkirtill (e. hypothyroidism) er það þegar skjaldkirtillinn framleiðir ekki nóg af hormónum. Helstu einkenni eru:

  • Minni orka, matarlyst er hefðbundin en hundurinn virðist bæta á sig auka kílóum.

  • Þola verr kulda

  • Hegðunarbreytingar,

  • Mattur feldur, missir feld, skallablettir eða aukin húðvandamál.

  • Gróandi í sárum getur oft verið hægari en venjulega.

  • Hjartsláttur er óeðlilegur.

Athugið að sumir hundar geta verið án allra greinilegra einkenna.

Greining á vanvirkum skjaldkirtli er gerð með blóðprufu hjá dýralækni.
í sumum tilfellum er nauðsynlegt að taka aðra blóðprufu sem er send erlendis til rannsóknar. Ef hundur greinist með vanvirkan skjaldkirtil er hægt að setja hann á lyf sem bæta upp skort á skjaldkirtilshormóninu.