Fróðleikur

  • Við tökum bráðveik og slösuð dýr fram yfir bókaða stofutíma!

    Hér fyrir neðan er upptalning á veikindum sem krefjast dýralæknisaðstoðar eins fljótt og auðið er. Listinn er ekki tæmandi!

    • Andnauð

    • Þvagstífla

    • Alvarleg blæðing

    • Yfirlið og flog

    • Eitrun

    • Alvarlegir áverkar (trauma)

    • Magasnúningur

    • Bráðakeisaraskurður

  • Alla hunda, ketti og kanínur ætti að bólusetja með reglulegum hætti.

    Mælt er með að grunnbólusetja hvolpa við 8 vikna aldur, aftur þegar þeir eru 12 vikna og svo 16 vikna. Næst er svo bólusett ári seinna og eftir það á tveggja ára fresti.
    Bóluefnið sem notast er við á Íslandi heitir Recombitek og veitir hundunum vörn gegn smáveirusótt (canine parvovirus), lifrarbólgu (canine adenovirus I – hepatitis contagiosa canis), hundafári (paramyxovirus – canine distemper) og kennelhósta (canine parainfluenza).

    _________________________

    Mælt er með að bólusetja ketti tvisvar í upphafi, fyrst við 12 vikna aldur og svo aftur 16 vikna. Næst ætti svo að bólusetja þá ári seinna en eftir það fer tíðnin eftir smitálagi. Þannig ætti að bólusetja útiketti á hverju ári en inniketti sem aldrei umgangast ókunnuga ketti ætti að vera óhætt að bólusetja á 1-3 ára fresti. Bóluefnið sem notast er við á Íslandi heitir Purevax og veitir köttunum vörn gegn kattafári (feline parvovirus – feline panleucopenia), kattaflensu (feline herpesvirus 1 – feline viral rhinotracheitis) og kattakvefi (feline calicivirus). Þessar veirur eru allar landlægar á Íslandi

    _________________________

    Mælt er með að bólusetja kanínur gegn smitandi lifrardrepi (rabbit haemorrhagic disease).
    Bóluefnið heitir Eravac og mælt er með einni grunnbólusetningu eftir 5 vikna aldur og svo árlega

    Auk bólusetninga ætti að ormahreinsa hunda og ketti árlega.
    Í reglugerð um velferð gæludýra er einnig kveðið á um skyldu gæludýraeigenda til að láta örmerkja alla hunda, ketti og kanínur og skrá í miðlægan gagnagrunn, www.dyraaudkenni.is

  • Uppköst og niðurgangur eru algeng einkenni hjá hundum og köttum. Þau geta komið fram út frá fjölmörgum sjúkdómum, þ.á.m. ójafnvægis í þarmabakteríuflórunni, maga og þarmabólgum, vírus-, bakteríu og sníkjudýrasýkingum.

    Í flestum tilfellum er hægt að meðhöndla einkennin með góðum árangri án þess að vera með greiningu fyrir orsökum meltingatruflananna.

    • Fasta hundinn/köttinn í 12-24 klst, skammta vatnið lítið í einu (á ekki við fyrir hvolpa og kettlinga)

    • Gefa góðgerla t.d promax eða pro-lac

    • Þegar byrjað er að gefa hundinum/kettinum aftur að borða er gott að notast við auðmeltanlegt sjúkrafóður sem fer vel í viðkvæman maga (t.d. Gastrointestinal frá Royal canine og i/d frá Hills). Kjósi eigandi heimatilbúinn mat má gefa t.d. soðinn kjúkling og hrísgrjón. Mikilvægt er að gefa lítið í einu og oftar yfir daginn fyrst um sinn. Þegar niðurgangur og uppköst hafa jafnað sig og ekki verið til staðar í 2-3 daga má færa sig rólega aftur í upprunalega fóðrið

    Í eftirtöldum tilfellum er mælt með að hringja í dýralækni!

    • Ef þetta er hvolpur/kettlingur

    • Ef hundurinn/kötturinn jafnar sig ekki á 4-7 dögum

    • Ef uppköst vara í lengur en 24 klst hjá fastandi hundi/ketti

    • Ef niðurgangurinn/uppköstin eru blóðug

    • Ef niðurgangurinn er kolsvartur

    • Ef hundurinn/kötturinn fer ekki að borða eða drekka nóg eftir föstuna

    • Ef hundurinn/kötturinn er með hita (yfir 39°C þegar mælt er með rassamæli)

  • Hundar
    Við geldingu á rökkum eru eistu fjarlægð úr pung og settir innri saumar svo ekki er þörf á saumatöku. Skurðurinn er á milli pungs og typpis og rakkinn þarf að hafa skerm í 5-7 daga svo hann komist ekki í hann og sleiki.

    Í ófrjósemisaðgerð á tík eru eggjastokkarnir fjarlægðir í gegnum skurð á kviðarholi og settir innri saumar svo ekki er þörf á saumatöku. Tíkin þarf að hafa skerm eða vera í fatnaði s.s. skurðbúningi í 7-10 daga til þess að koma í veg fyrir að hún komist í skurðinn og sleiki hann. Eftir aðgerðina hætta tíkur að lóða.

    Viðmið, um hvaða aldri hundur þarf að hafa náð fyrir geldingu eða ófrjósemiðagerð, eru breytileg eftir hundategundum. Sjá Suggested Guidelines by Breed for Age of Neutering (mynd bls. 5). Þær hundategundir sem ekki eru á þessum lista hafa ekki verið rannsakaðar sérstaklega.

    Kettir

    Við geldingu á fressum eru eistun fjarlægð úr pung og engir saumar notaðir. Eftir aðgerð eru því tvö lítil skurðsár á pungnum sjálfum sem yfirleitt gróa á nokkrum dögum.

    Í ófrjósemisaðgerð á læðu eru eggjastokkarnir fjarlægðir í gegnum skurð á kviðarholi og settir innri saumar svo ekki er þörf á saumatöku.

    Fyrir bæði fress og læður er miðað við að kötturinn þurfi að vera orðinn a.m.k. 2 kg að þyngd fyrir aðgerð.
    _____________________________

    Fyrsta sólarhringinn eftir allar þessar aðgerðir er mikilvægt að halda hita á dýrinu. Það tekur líkamann 24-48 klst að vinna úr svæfingarlyfjunum svo líklegt er að dýrið sé sljótt/þreytt eftir aðgerðina þar sem lyfin hægja á líkamsstarfseminni. Ekki er óalgengt að matarlyst sé minni eftir aðgerðina, en það er þó mikilvægt að bjóða upp á vatn og nokkrar litlar máltíðir. Ekki hafa vatn í grennd við rúm/bæli á meðan dýrið er sljótt

    Mikilvægt er að fylgjast með skurðinum fyrstu dagana eftir aðgerð og láta athuga sárið ef einhver grunur er um sýkingu. Sýking gæti lýst sér í vondri lykt frá sárinu, og ef dýrið er slappt, lystarlaust og sefur mikið.

  • Legbólga (e. pyometra) er skilgreind sem sýking í legi og er hættulegt ástand sem getur leitt til dauða.
    Allar tíkur geta fengið legbólgu en það er þó algengara þegar þær eru komnar yfir miðjan aldur og þá oftast 2-8 vikum eftir lóðarí. Einnig eru tíkur sem eiga sögu um óreglulegt lóðarí og/eða gervióléttu í auknum áhættuhóp.

    Legbólga getur verið ýmist opin eða lokuð, þá eftir því hvort að leghálsinn er opinn eða lokaður. Ef hann er opinn kemur oftast sýkt útferð frá tíkinni og hún sleikir sig þá óeðlilega mikið. Ef leghálsinn er lokaður fyllist legið og getur í verstu tilfellum rofnað. Lokuð legbólga er því mjög hættuleg og mikilvægt að tíkin fái læknismeðhöndlun sem fyrst.

    Meðhöndlun við legbólgu er skurðaðgerð þar sem leg og eggjastokkar eru fjarlægð.

    Einkenni legbólgu eru:

    • Drekka mikið/pissa mikið

    • Slímug útferð frá ytri kynfærum

    • Lystarleysi

    • Slappleiki og/eða vanlíðan

    • Hiti (yfir 39,2 °C)

    • Þaninn kviður

    • Uppköst

    Athugið að tíkur geta sýnt einhver eða öll ofangreindra einkenna en geta líka verið nánast einkennalausar.

    Mikilvægt er fyrir eigendur tíka að gera sér grein fyrir að ófrjósemisaðgerð kemur í veg fyrir hættu á legbólgu. Einnig eru mun minni líkur á að tík sem búið er að taka úr sambandi fái júguræxli sem eru ein algengustu æxlin í hundum. Því fyrr sem tík er tekin úr sambandi, þeim mun minni líkur á júguræxlum seinna meir.

  • Skjaldkirtillinn (e. Thyroid gland) er staðsettur sitthvoru megin við barkann í hálsinum á dýrum. Þessi kirtill hefur það hlutverk að framleiða skjaldkirtilshormón sem hefur áhrif á líffæri og aðra hormónaframleiðslu í líkamanum. Bæði hundar og kettir geta greinst með vandamál tengd skjaldkirtli. Langoftast er það þá ofvirkur skjaldkirtill hjá köttum en vanvirkur skjaldkirtill hjá hundum.

    Ofvirkur skjaldkirtill (e. Hyperthyroidism) er þegar skjaldkirtilinn framleiðir skjaldkirtilshormón í of miklum mæli. Aukin framleiðsla á T3 og T4 hormóninu hefur áhrif á aðra hormónastarfsemi í líkamanum og leiðir oft til veikinda. Helstu einkenni eru:

    • Aukin matarlyst, þyngist ekki (jafnvel léttist).

    • Aukinn þorsti og/eða aukið þvaglát.

    • Uppköst, niðurgangur

    • Mattur eða illa hirtur feldur

    • Hegðunarbreytingar t.d. að „góla“ í auknum mæli.

    • Þykkari klær

    • Óeðlilega hraður hjartsláttur

    • Ákveðinn andlitssvipur sem dýralæknar þekkja vel

    Kisur geta verið með sum eða engin af ofangreindum einkennum. Meðan veikindi eru ekki orðin langt leidd þá eru einkenni oft mjög væg. Greining á ofvirkum skjaldkirtli er gerð með blóðprufu hjá dýralækni. Ef köttur greinist með ofvirkan skjaldkirtli er hægt að setja hann á lyf eða í vægari tilfellum er stundum nóg að skipta yfir á sérstakt sjúkrafóður.

    Vanvirkur skjaldkirtill (e. hypothyroidism) er það þegar skjaldkirtillinn framleiðir ekki nóg af hormónum. Helstu einkenni eru:

    • Minni orka, matarlyst er hefðbundin en hundurinn virðist bæta á sig auka kílóum.

    • Þola verr kulda

    • Hegðunarbreytingar,

    • Mattur feldur, missir feld, skallablettir eða aukin húðvandamál.

    • Gróandi í sárum getur oft verið hægari en venjulega.

    • Hjartsláttur er óeðlilegur.

    Athugið að sumir hundar geta verið án allra greinilegra einkenna.

    Greining á vanvirkum skjaldkirtli er gerð með blóðprufu hjá dýralækni. í sumum tilfellum er nauðsynlegt að taka aðra blóðprufu sem er send erlendis til rannsóknar. Ef hundur greinist með vanvirkan skjaldkirtil er hægt að setja hann á lyf sem bæta upp skort á skjaldkirtilshormóninu.

  • Laser meðhöndlun er árangursrík leið til þess að draga úr sársauka og/eða bólgum tengdum krónískum eða tilfallandi kvillum svo sem:

    laser