Þjónusta

  • Við erum með tvær vel útbúnar skoðunarstofur þar sem tekið er á móti dýrum í stofutíma.

    Stofutími hentar fyrir allar almennar skoðanir, bólusetningar, ormahreinsun og aðrar reglulegar lyfjagjafir.

    Til að bóka tíma í skoðun á stofu er hægt að notast við Noona eða hringja í síma 540-9900.

    Athugið að meðhöndlun sem krefst deyfingar/svæfingar á ekki að bóka í stofutíma, frekar sem innlögn

  • Dýr eru lögð inn á spítalann þegar þau koma í aðgerðir eða þegar þau þarfnast meðhöndlunar/rannsókna sem krefjast deyfingar eða lengri tíma en gefst í stofutíma.

    Fyrir deyfingar/svæfingar eiga kettir/hundar/hestar að fasta frá miðnætti kvöldið áður, þ.e. ekki éta neinn mat en mega drekka vatn. Kanínur og nagdýr eiga aldrei að fasta. Eigandi mætir með dýrið milli kl. 8 og 9 að morgni innlagnardags og skilur það eftir hjá okkur. Gott er að vera búin/n/ð að fylla út eyðublað fyrir innlögn en einnig er hægt að fylla það út á staðnum. Að meðhöndlun lokinni hringjum við í eiganda og látum vita að dýrið sé tilbúið að fara heim.

    Við erum vel tækjum búin til að sinna þörfum sjúklinga og má sem dæmi nefna vel útbúna skurðstofu með svæfingarvél, nýtt blóðrannsóknatæki sem skilar niðurstöðum á nokkrum mínútum og nýlegt hraðvirkt röntgentæki. Einnig nýlegt sónartæki og augnsmásjár sem nýtast vel við sérhæfða þjónustu vegna hjarta- og augnvandamála.

  • Hjá okkur starfa tveir dýralæknar sem hafa sérhæft sig í beinaskurðaðgerðum. Þær Katrín og Halldóra gera aðgerðirnar saman og þetta eru t.d. aðgerðir vegna stærri/flóknari beinbrota, hnéskeljaloss og aðgerðir á slitnum krossböndum.

    Dýraspítalinn í Víðidal er eini spítali landsins þar sem stærri krossbandsaðgerðir eru gerðar (e. Tibial Tuberosity Advancement/TTA)

    Að öllu jöfnu er skurðstofan frátekin fyrir beinaaðgerðir á þriðjudögum. Til að bóka tíma í beinaaðgerð eða í viðtal fyrir aðgerð hjá Katrínu eða Halldóru hafið samband í síma 540-9900

  • Hjá okkur starfar dýralæknir sem hefur sérhæft sig í hjartavandamálum smádýra. Algengir hjartakvillar eru t.d. míturlokuleki (e. mitral valve disease) og hjartavöðvaslen (e. dilated cardiomyopathy, DCM) hjá hundum og HCM (e. hypertrophic cardiomyopathy) hjá köttum.

    Hjartaskoðanir fela oftast í sér sónarskoðun á hjarta dýrsins og/eða röntgenmyndatöku af brjóstholi en Ólöf dýralæknir leggur mat á hvert og eitt tilfelli.

    Ólöf tekur á móti hjartasjúklingum alla þriðjudaga og fimmtudaga. Til þess að bóka tíma hjá henni þarf að hafa samband við okkur í síma 540-9900

  • Hjá okkur starfar dýralæknir sem hefur sérhæft sig í augnlækningum dýra. Algeng augnvandamál eru t.d. sýkingar, gláka, innfelld augnlok (entropion) og áverkar á augum.

    Lísa dýralæknir tekur á móti sjúklingum í skoðun í stofutíma en auk þess gerir hún augnaðgerðir þriðja hvern miðvikudag.

    Til að bóka tíma hjá Lísu þarf að hafa samband við okkur í síma 540-9900

  • Við erum með rúmgott hesthús á spítalanum og góða aðstöðu til að meðhöndla og framkvæma aðgerðir á hestum.

    Við bjóðum einnig upp á opna tíma á hestaspítalanum frá 15. janúar - 15. júní á mánudögum og fimmtudögum frá kl. 15-17
    Opnir tímar henta t.d. fyrir röspun, skaufaþvott og aðra minniháttar meðhöndlun. Fyrir röntgenmyndatökur, söluskoðanir eða aðgerðir þarf að panta tíma!

    Helgi Sigurðsson dýralæknir sér að mestu leyti um þjónustu við hestamenn. Beinn sími hjá honum er 892-1719

  • Að þurfa að kveðja dýrið sitt er alltaf erfitt. Stundum eru sjúkdómar eða slys ástæðan en öðrum stundum eru það öldrun og skert lífsgæði sem valda því að við þurfum að kveðja þessa bestu vini okkar.

    Það getur verið erfitt fyrir eigendur að gera sér grein fyrir skertum lífsgæðum dýra sinna þar sem skerðingin gerist oft smátt og smátt. Að fara í gegnum lista af atriðum til þess að meta heilsu og líðan dýrsins getur hjálpað eigendum að gera sér betur grein fyrir lífsgæðum þess, sérstaklega þegar fer að líða að ævilokum.
    Hér má finna skala til þess að meta lífsgæði.

    Á Dýraspítalanum gerum við okkar besta til að tryggja að síðustu stundir dýranna séu friðsælar og að eigendur geti átt rólega og fallega kveðjustund 🖤

  • Við bjóðum upp á brennslu fyrir gæludýr af öllum stærðum. Annars vegar er hægt að velja almenna brennslu, þá fær eigandi öskuna af dýrinu ekki til baka og verðið er 1519 kr/kg. Hins vegar er í boði sérbrennsla og þá fær eigandi ösku af sínu dýri til baka, afhendingartími er 1-2 vikur. Verðið er misjafnt eftir stærð dýra, sjá hér

    Við erum með nokkrar tegundir duftkerja til sölu og bjóðum einnig upp á að gera loppuför, sjá hér.

    Við erum með nýjan Addfield brennsluofn (2023) á staðnum og framfylgjum nákvæmum vinnubrögðum og verkferlum í kringum brennslur svo eigendur geti verið þess fullvissir að aska af þeirra dýri skili sér heim aftur.